top of page

Um vefinn og höfundinn

IMG_9413.jpg

Ég heiti Vessela Dukova og ég er búin að vinna í leikskóla í 18 ár og hef ég unnið með börnum úr öllum aldurshópum leikskólans. Þegar ég var með eldri börnin þá voru þau mjög spennt að vinna með „skólaverkefni“ í hópastarfi. Við fundum upp á allskonar verkefnum, sem unnin voru við borð og voru börnin mjög spennt og unnu verkefnin af miklum áhuga og einbeitingu. Við kennararnir vorum alltaf að reyna að finna skemmtileg og áhugaverð verkefni eða leiki. Grunnþátturinn sjálfbærni (Aðalnámskrá leikskóla, 2011) er hugtak sem við byrjuðum að nota mjög mikið í okkar daglega lífi. Við þurfum að efla umhverfisvitund, horfa til framtíðar og að mínu mati er vöntun á námsefni fyrir leikskóla til að fræða börn um sjálfbærni. Við kennum börnunum að flokka rusl og endurvinna, en menntun til sjálfbærni er ekki bara það heldur svo miklu meira. Menntun til sjálfbærni kennir okkur líka að við þurfum að lifa í sátt og samlyndi við aðra og hvernig við lærum að öðlast þekkingu eða að vera heilbrigðar manneskjur (UNESCO, 1996). Að mínu mati er það án efa mjög gagnlegt að draga þetta efni saman og tilvalið að búa til leikjabanka með leikjum og verkefnum tengdum viðfangsefnum leikskólans, sérstaklega um sjálfbærni. Þá þurfum við ekki að verja jafn miklum dýrmætum tíma í að finna upp og leita að verkefnum fyrir þennan aldurshóp. Tilgangur þessa verkefnis er að koma á framfæri aðgengilegum hugmyndum sem nýta má í kennslu og starfi tengdu sjálfbærni í leikskólum.

 

Af hverju vefsíða en ekki bók? Við lifum á öld upplýsinga og tækni og til að gera upplýsingar um sjálfbærni sem aðgengilegastar var tekin sú ákvörðun að búa til vefsíðu en ekki bók. Vefurinn nær til fleiri einstaklinga og er opinn öllum þeim sem vilja læra um sjálfbærni. Með vefsíðu er hægt að setja inn ógrynni upplýsinga um leiki og myndir eða stutt myndbönd sem segja miklu meira en skrifuð orð. Með vefsíðugerð er pappír einnig sparaður, í anda sjálfbærrar hugsunar. Auk þess má halda áfram að bæta við efni, stækka vefsíðuna og þróa áfram, eftir að hún hefur verið sett í loftið.

 

Fyrir uppsetningu vefsíðunnar var notað vefumsjónarkerfið Wix.com. Þetta kerfi er opið öllum til afnota og býður upp á fjölbreytileika í uppsetningu og marga útlitsvalmöguleika. Þema vefsíðunnar er valið úr þemabanka vefumsjónarkerfisins og er vefsíðan byggð þannig upp að allar upplýsingar fyrir leiki eru vel aðgengilegar og myndir hafa verið valdar sem styðja við textann og skreyta síðuna. Bakgrunnsmyndin og myndaalbúmin á vefsíðunni eru valin úr almennu myndasafni af Wix.com. 

 

bottom of page