top of page

Sjálfbærni og menntun til sjálfbærni

Hugtakið „sjálfbær þróun“ var upphaflega skilgreint árið 1987 og er þekkt í dag sem „þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta eigin þörfum" (UNESCO, 1987). Þarfir mannsins eru: atvinna; menntun; heilsa; aðgangur að heilbrigðu náttúrulegu umhverfi; jákvæð og svæðisbundin sjálfsmynd; ábyrgð og stjórnun (McKeown, 2002). 

 

Menningarmálstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO, e.d.) skilgreinir sjálfbæra þróun sem samþætt hugtak sem felur í sér allar mannlegar aðgerðir og hefur þann tilgang að bæta lífsgæði bæði í nútímanum og fyrir framtíðarkynslóðir á meðan hún heldur möguleikum jarðarinnar til að styðja lífið í öllum sínum fjölbreytileika. Sjálfbær þróun er byggð á lýðræði, réttarríki og virðingu fyrir grundvallarréttindum, frelsi, jöfnum tækifærum og menningarlegri fjölbreytni (UNESCO, e.d.). Sjálfbær þróun stuðlar, samkvæmt UNESCO (e.d.), að hagkerfi sem byggir á vísindum, nýsköpun, félagslegri og svæðisbundinni samheldni og vernd og heilsu manna og umhverfisins. 

 

Menntun til sjálfbærni gerir fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem tengjast samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Hugtökin sjálfbærni og sjálfbær þróun fela í sér að við skilum ekki umhverfinu okkar til afkomendanna í lakara ástandi en við tókum við því. Eins að við leitumst við því að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum (Aðalnámskrá leikskóla, 2011).

 

Menntun til sjálfbærni og vísindi eru samþætt hugtök í Aðalnámskrá leikskóla. Með því er vísað til aðferða barna við að kanna og reyna að skilja umhverfi sitt. Börn læra í samskiptum sínum við umhverfi sitt. Byggja þarf á þeirri reynslu til að skapa aðstæður fyrir nýja og merkingarbæra reynslu. Áhersla er lögð á samhengi þeirra viðfangsefna sem unnið er með hverju sinni svo sem vísindi og tækni, náttúru og samfélag og mismunandi náttúrufyrirbæri. Enn fremur þarf að ýta undir vísindalega hugsun barna og aðstoða þau við að sjá tengsl, orsök og afleiðingu. Í því felst mikilvægi þess að kenna börnum virðingu í samskiptum sínum við umhverfið og náttúruna.

bottom of page