top of page

Leikjabankinn

Leikirnir í leikjabankanum miðast við börn á aldrinum þriggja til fimm ára. Með hverjum leik fylgir skilgreint markmið, talið er upp hvaða áhöld eru notuð og hvaða markmið menntunar til sjálfbærni eru tengd við viðkomandi leik. Auk þess eru leiðbeiningar gefnar um hvað kennari þarf að hafa í huga við undirbúning og framkvæmd leiks. Leikurinn kallar fram skemmtilegar stundir með hreyfingu, sköpun og tónlist. Með ítarlegum leiðbeiningum var hugsunin sú að bæði leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla geti unnið með leikina á sem aðgengilegastan hátt. Sumir leikjanna eru með tilbúin áhöld, búin til af mér og er hægt að nota hugmyndirnar að þeim. Leikirnir eru ýmist frumsamdir eða fengnir að láni og lagaðir að hugmyndum verkefnisins og er það von höfundar að þeir muni nýtast leikskólum landsins. 

 

Í leikjabankanum eru leikirnir settir í fjóra flokka: Fyrsti flokkurinn felur í sér leiki sem snúast um það að læra til að öðlast þekkingu. Annar flokkurinn felur í sér leiki sem snúast um það að læra til að öðlast færni. Þriðji flokkur felur í sér leiki sem snúast um það að læra að vera. Fjórði flokkurinn felur í sér leiki sem snúast um að læra að lifa í sátt og samlyndi við aðra. 

 

Sumar hugmyndirnar eru samdar af mér sjálfri eða byggðar á leikjum af öðrum vefsíðum eins og vef Námsgagnastofnunar (www.nams.is), vefnum Náttúran.is, vefsíðunni eldri.reykjavik.is eða eru byggðar á bókinni Kniga za uchitelia (e. Búlgörsk kennslubók fyrir leikskólakennara)(Gjurov, 2004). Margir leikjanna eru lærðir á leikskólum þar sem ég hef unnið síðustu árin. Hver leikur er valinn út frá því hvort og þá hvernig hann tengist markmiðum menntunar til sjálfbærni (Sigrún Helgadóttir, 2013, bls. 51) og er hver leikur sérstaklega útskýrður fyrir notandanum til að hann átti sig á tilgangi leiksins og af hverju hann varð fyrir valinu, sem og hvaða nám eða þekking felst í leiknum.

Að læra til að öðlast þekkingu

 

Að læra til að þekkja (e. learning to know) fjallar um ferlið hvernig við lærum með því að þróa minni okkar, hæfileika til að hugsa og einbeitingu okkar.

Að læra til að öðlast færni

 

Að læra til að gera (e. learning to do) veitir einstaklingum færni sem gerir þeim kleift að taka þátt í hagkerfi heimsins og samfélagi.

Að læra að vera


Að læra að vera (e. learning to be) fjallar að einstaklingar öðlist félagsfærni og færni til sjálfsgreiningar sem geri þeim kleift að þróast eins mikið og mögulegt er félagslega sem og líkamlega, í átt að fullmótuðum og heilbrigðum manneskjum.

Að læra að lifa í sátt og samlyndi við aðra

 

​Læra að lifa saman er fjórði stólpinn (e. learning to live together) fjallar um að einstaklingur læri að búa í lýðræðislegu og menningarlegu samfélagi. Að einstaklingur læri að bera virðingu fyrir öðrum og hvernig hann eigi að búa í friði og sátt á öllum stigum þjóðfélagsins. Til að lifa í sátt og samlyndi, verða mannleg samskipti að vera til staðar og líka þurfa þau að vera góð.

bottom of page