„I would give wings to the children, but I would leave the child alone so that he could learn how to fly on his own.“ Gabriel García Marques
Leikurinn
Leikurinn gegnir mikilvægu hlutverki í leikskólastarfi. Hann uppfyllir fjölda persónulegra þarfa hjá börnum vegna þess að hann er spegilmynd af raunveruleikanum. Í gegnum leik kynnast börn heimi hinna fullorðnu (Lillemyr, 2009).
Leikurinn er hluti af barnamenningu sem stuðlar að félagslegri meðvitund barnsins; að það njóti sín í félagi við aðra (Lillemyr, 2001). Leikurinn stuðli að persónuþroska sem og félagslegri og menningarlegri vitund sem barnið samsami sig með. Hann telur auk þess að leikinn megi skoða bæði út frá fagurfræðilegri upplifun sem og reynslu og sjálfsprottinni tjáningu. Eins hafi leikurinn siðferðislegt gildi og nefnir í því samhengi fyrirfram ákveðnar leikreglur um það hvað má og hvað ekki. Leikurinn, bendir Lillemyr á, getur stuðlað að úrvinnslu neikvæðra tilfinninga og upplifana á þann hátt að barnið ímyndar sér aðstæður tengdar eigin upplifunum sem það „sviðsetur“ í leik sínum og vinnur þannig úr þeim á eigin forsendum. Í gegnum leikinn læri barn að þekkja gagnkvæma virðingu og einnig að taka tillit til og virða skoðanir annarra. Lillemyr (2001) telur að barn þroski einnig hæfni sína til að skilja umhverfið og heiminn sem það lifir í. Leikurinn sé góð leið til þess því þar upplifi barnið sig öruggt í tilraunum sínum og fái útrás fyrir ímyndunaraflið á eigin forsendum án fordæmingar annarra um það „hvað sé rétt eða rangt“. Leikurinn gegnir mikilvægu hlutverki í leikskólastarfi. Hann uppfyllir fjölda persónulegra þarfa hjá börnum vegna þess að hann er spegilmynd af raunveruleikanum. Í gegnum leik kynnast börn heimi hinna fullorðnu (Lillemyr, 2009).
Kenningar fræðimannanna John Dewey, Jean Piaget og Lev Vygotsky hafa haft mikil áhrif á þróun skólastarfs í gegnum tíðina. Það sem áðurnefndir fræðimenn eiga sameiginlegt er að þeir töldu allir að börn lærðu best með því að prófa sig áfram í leik og gera uppgötvanir sjálf. Eins töldu þeir að reynslan væri mikilvægur þáttur í menntun einstaklingsins þar sem þekking hans eflist við eigin reynslu.
Leikurinn, samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla, getur verið megin námsleið barna. Með leiknum fái börn tækifæri til að þekkja og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, efla reynslu, sýna tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn (Aðalnámskrá leikskóla, 2011). Í gegnum leik myndi börn félagslega hópa og skapi eigin menningu. Þá setji þau líka fram eigin hugmyndir í leik og jafnframt læri þau að skilja hlutina frá sjónarmiði annarra. Þannig séu börnin virkir þátttakendur í lýðræðislegum athöfnum þegar þau leiki sér (Aðalnámskrá leikskóla, 2011).